Bréfið til Hebrea 10.

Fyrst segir hann: ,,Fórnir og gjafir og brennifórnir og syndafórnir hefur þú eigi viljað og eigir geðjaðist þér að þeim." En það eru einmitt þær sem fram eru bornar samkvæmt lögmálinu. Síðan segir hann: ,,Sjá, ég er kominn til að gera vilja þinn." Hann afnemur hið fyrra og staðfestir hið síðara. Þannig gerði hann það sem Guð vildi og þess vegna erum við helguð orðin að hann fórnaði sjálfum sér í eitt skipti fyrir öll. Sérhver prestur er hvern dag bundinn við helgiþjónustu sína og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir. Þær geta þó aldrei afmáð syndir. En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs og bíður þess síðan að óvinir hans verði gerðir að fótskör hans. Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þau er helguð verða. Heilagur andi vitnar einnig fyrir okkur. Fyrst segir hann: 

Þetta er sáttmálinn er ég mun gera við þá eftir þá daga, segir Drottinn. Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra og í hugskot þeirra vil ég rita þau.

Síðan segir hann:

Ég mun  aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota. 

En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar þarf ekki framar fórn fyrir synd. Bréf/Hebrea 10:8-18.

 


Bæn dagsins.

Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðis degi hjálpaði ég þér. 2.Kor.6:2.


Bréfið til Hebrea 10.

Hin eina fórn

Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða sem er í vændum, ekki skýra mynd þess. Þær sömu fórnir sem ár eftir ár eru bornar fram geta því aldrei gert þá fullkomna til frambúðar sem ganga fram fyrir Guð. Hefðu ekki dýrkendur Guðs þá annars hætt að fórna ef þeir hefðu hreinsast í eitt skipti fyrir öll og væru sér ekki framar meðvitandi um synd? En með þessum fórnum er minnt á syndirnar ár hvert. Því að blóð nauta og hafra getur með engu móti numið burt syndir. Því er það að Kristur segir þegar hann kemur í heiminn:

Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað en líkama hefur þú búið mér. Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki. Þá sagði ég: ,,Sjá, ég er kominn til að gera vilja þinn, Guð minn, eins og ritað er í bókinni um mig." Bréf/Hebrea 10:1-7.


Bæn dagsins.

Jesús sagði: ,,Enginn getur sér Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju." Jóh. 3:3.


Bréfið til Hebrea 9.

Í eitt skipti fyrir öll

Það var því óhjákvæmilegt að eftirmyndir þeirra hluta sem á himnum eru yrðu hreinsaðar með slíkum hættir. En sjálft hið himneska krefst betri fórna en þessara. Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gerðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess að birtast nú fyrir augliti Guðs okkar vegna. Og ekki gerði hann það til þess að fórna sjálfum sér margsinnis eins og æðsti presturinn sem gengur inn í hið heilaga á ári hverju með annarra blóð. Þá hefði hann oft þurft að líða frá grundvöllum heims. En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll við endi aldanna til að afmá syndina með fórn sinni. Á sama hátt og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm, þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti  til þess að bera syndir margra, og aftur mun hann birtast, ekki sem syndafórn heldur til að frelsa þá sem bíða hans. Bréf/Hebrea.9:23-28.


Bæn dagsins.

Jesús sagði: ,,Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hefi boðið yður." Matt.28:18-20.


Bréfið til Hebrea 9

Þannig er þessu fyrir komið. Prestarnir ganga stöðugt inn í fremri tjaldbúðina og annast þjónustu sína. Inn í hina hina innri gengur æðsti presturinn einn, einu sinni á ári, ekki án fórnarblóðs. Það ber hann fram vegna sjálfs sín og fyrir syndir sem fólkið hefur drýgt af vangá. Með því sýnir heilagur andi að vegurinn til hins heilaga er enn eigi kunnur orðinn, á meðan fremri tjaldbúðin stendur enn. Hún er ímynd þess tíma sem nú er. Hér eru fram bornar gjafir og fórnir sem megna ekki að færa þeim sem innir þjónustuna af hendi vissu um að vera fullkominn. Þetta eru aðeins ytri fyrirmæli ásamt reglum um mat og drykk og ýmiss konar þvotta sem mönnum eru á herðar lagðar lagðar allt þangað til Guð endurnýjar allt. En Kristur er kominn sem æðsti prestur þeirra gæða sem komin eru. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð sem ekki er með höndum gerð, það er að segja er ekki af þessari sköpun. Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa heldur með eigið blóð inn í heiðheilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar. Blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gerst, á að helga þá svo að þeir verði hreinir hið ytra. Hve miklu fremur mun þá blóð Krists, þegar hann hefur í krafti eilífs anda borið sjálfan sig fram fyrir Guð sem lýtalausa fórn, hreinsa samvisku okkar af dauðum verkum svo að við getum þjónað lifanda Guði. Þess vegna er hann meðalgangari nýs  sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum til þess að þau sem Guð hafði kallað mættu öðlast hina eilífu arfleifð sem heitið var. Arfleiðsluskrá tekur ekki gildi fyrr en sá er dáinn sem gerði hana. Hún er óhagganleg þegar um látna er að ræða en er í engu gildi meðan arfleiðandi lifir. Þess vegna var ekki heldur hinn fyrri sáttmáli settur án blóðs. Þegar Móse hafði kunngjört gjörvöllum lýðnum öll boðorð lögmálsins, þá tók hann blóð kálfanna og hafranna ásamt vatni og skarlatsrauðri ull og ísópi, og stökkti bæði á sjálfa bókina og allan lýðinn og mælti: ,,Þetta er blóð sáttmálans sem Guð gerði við yður. Sömuleiðis stökkti hann blóðinu á tjaldbúðina og öll áhöldin við helgiþjónustuna. Og samkvæmt lögmálinu er það nálega allt sem hreinsast með blóði og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs. Bréf/Hebrea 9:6-22.


Bæn dagsins

Kristur Jesús afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu. 2 Tím.1:10.


Bæn dagsins.

Jesús sagði: ,,Hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera." Lúk.12:34


Bréfið til Hebrea 9.

Helgidómur á himni og jörðu

Nú hafði fyrri sáttmálinn líka fyrirskipanir um þjónustuna og jarðneskan helgidóm. Tjaldbúð var gerð og í fremri hluta hennar voru bæði ljósastikan, borðið og skoðunarbrauðin og heitir hún ,,hið heilaga". En bak við annað fortjaldið var tjaldbúð sem hét ,,hið allra helgasta".Þar var reykelsisaltari úr gulli og sáttmálsörkin sem öll var gulli búin. Í henni var gullkerið með manna í, stafur Arons sem laufgast hafði og sáttmálsspjöldin. En yfir henni voru kerúbar dýrðarinnar og breiddu vængina yfir náðarstólinn. En um þetta hvert og eitt ræði ég ekki nú. Bréf/Hebrea 9:1-5.


Bæn dagsins.

Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann, er hann á að velja. Sálm.25.12.


Bréfið til Hebrea 8.

Æðsti prestur nýs sáttmála

Höfuðinntak þess sem sagt hefur verið er þetta: Við höfum þann æðsta prest er settist til hægri handar við hásæti hátignarinnar á himnum. Hann þjónar sem prestur í helgidóminum, hinni sönnu tjaldbúð sem Drottinn reisti en eigi maður. Sérhver æðsti prestur er skipaður til þess að bera fram bæði gjafir og fórnir. Þess vegna er nauðsynlegt að þessi æðsti prestur hafi líka eitthvað fram að bera. Væri hann nú á jörðu mundi hann alls ekki vera prestur, þar sem prestar eru fyrir sem samkvæmt lögmálinu bera fram gjafirnar. En tjaldbúðin þar sem þeir þjóna er eftirlíking og skuggi hinnar himnesku, eins og Móse fékk bendingu um frá Guði er hann var að koma upp tjaldbúðinni: ,,Gæt þess," segir hann, ,,að þú gerir allt eftir þeirri fyrirmynd sem þér var sýnd á fjallinu." En nú hefur Jesús fengið þeim mun ágætari helgiþjónustu sem hann er meðalgangari betri sáttmála sem byggist á traustari fyrirheitum. Hefði hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur hefði ekki verið þörf fyrir annan. En nú ávítar Guð þá og segir: 

Sjá, dagar koma, segir Drottinn, þegar ég geri nýjan sáttmála við hús Ísraels og Júda. Hann verður ekki eins og sáttmálinn sem ég gerði við feður þeirra á þeim degi þegar ég tók í hönd þeirra og leiddi þá út úr Egyptalandi því að þeir rufu sáttmála minn og ég hirti eigi um þá, segir Drottinn. Þannig er sáttmálinn sem ég mun gera við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir, segir Drottinn: Ég mun leggja lög mín í hugskot þeirra og rita þau á hjörtu þeirra. Ég mun vera Guð þeirra og þeir vera fólk mitt. Enginn mun framar kenna landa sínum og bróður að segja: ,,Þekktu Drottin!" Allir munu þekkja mig, bæði smáir og stórir. Því að ég mun taka vægt á misgjörðum þeirra og mun ekki framar minnast synda þeirra.

Þar sem hann nú kallar þetta nýjan sáttmála þá hefur hann lýst hinn fyrri úreltan. En það sem er að úreldast og fyrnast er að því komið að verða að engu. Bréf/Hebrea 8:1-13.


Bæn dagsins.

Hvað segir ritningin: ,,Abraham trúði Guði, og það var reiknað honum til réttlætis." Róm.4:3.


Bréfið til Hebrea 7.

Þetta er enn miklu bersýnilegra á því að upp er kominn annar prestur, líkur Melkísedek. Hann varð ekki prestur eftir lögum og fyrirmælum manna heldur vegna þess að í honum býr líf og kraftur sem þrýtur ekki. Um hann er vitnað: ,,Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks." Hið fyrra boðorð er þar með ógilt af því að það var vanmáttugt og gagnslaust. Lögmálið gerði ekkert fullkomið. En nú höfum við öðlast betri von sem leiðir okkur nær Guði.

Þetta varð ekki án eiðs.Hinir urðu prestar án eiðs en hann með eiði þegar Guð sagði við hann: ,,Drottinn sór og hann mun ekki iðra þess: þú ert prestur að eilífu." Þessi samanburður sýnir að Jesús er orðinn ábyrgðarmaður betri sáttmála. Enn fremur urðu hinir prestarnir margir af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram. En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti. Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá sem hann leiðir fram fyrir Guð þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim. Slíks æðsta prests höfðum við þörf sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri. Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gerði hann í eitt skipti fyrir öll er hann fórnfærði sjálfum sér. Lögmálið skipar breyska menn æðstu presta en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar æðsta prest sem er sonur, fullkominn að eilífu. Bréf/Hebrea 7:15-28.


Bæn dagsins.

Jesús sagði: ,,Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og sálátra og eyða. Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð." Jóh.10:10.


Bæn dagsins.

Minnist bandingjanna, sem væruð þér sambandingjar þeirra. Minnist þeirra, er illt líða, þar sem þér sjálfir eruð einnig með líkama. Heb.13:3.

.

 

 

 

 

 

 

.


Bréfið til Hebrea 7

Prestur Guðs

Melkísedek þessi var konungur í Salem og prestur Guðs Hins hæsta. Hann gekk á móti Abraham og blessaði hann þegar hann sneri heimleiðis eftir að hafa unnið sigur á konungunum. Og Abraham lét honum í té tíund af öllu. Í fyrsta lagi þýðir nafn Melkísedeks ,,réttlætiskonungur"  en hann heitir enn fremur Saleimkonungur, það er ,,Friðarkonungur" .Þess er ekki getið hver faðir hans, móðir eða forfeður hans voru,hvenær hann fæddist og hvenær hann dó. Hann er líkur syni Guðs, hann heldur áfram að vera prestur um aldur. Virðið nú fyrir ykkur hvílíkur maður það var sem Abraham, sjálfur forfaðirinn, gaf valda tíund af herfanginu. Og víst er um það að þeim Levísonum, er fá prestdóminn, er boðið að taka tíund af lýðnum eftir lögmálinu, það er að segja af bræðrum sínum, enda þótt þeir séu komnir af Abraham. En sá er eigi var af ætt þeirra tók tíund af Abraham og blessaði þann er fyrirheitin hafði. Því verður þó ekki á móti mælt að sá sem er meiri blessar þann sem minni er. Hér taka dauðlegir menn tíund en þar tók sá er um var vitnað að hann lifi áfram. Og svo má að orði kveða að sjálfur Leví, hann sem tíund tekur, hafi greitt tíund þar sem Abraham gerði það því að enn þá var hann í lend forföður síns þegar Melkísedek gekk á móti honum. Fyrirmæli um presta eru grundvölluð í lögmálinu sem lýðurinn fékk. Hefði nú fullkomnun fengist með levíska prestdóminum, hver var þá framar þörf þess að segja að koma skyldi annars konar prestur að hætti Melkísedeka en ekki að hætti Arons? Þegar prestdómurinn breytist verður og breyting á lögmálinu. Sá sem þetta er sagt um var af annarri ætt og af þeirri ætt hefur enginn innt þjónustu af hendi við altarið. Því að alkunnugt er að Drottinn vor er af Júda ætt en Móse hefur ekkert talað um presta af þeirri ættkvísl. Bréf/Hebrea 7:1-14.


Bæn dagsins.

Ef sonurinn frelsar yður munuð þér sannarlega verða frjálsir. Jóh. 8:36.


Bréfið til Hebrea 6.

Jesús opnaði okkur leið

Þegar Guð gaf Abraham fyrirheitið þá ,,sór hann við sjálfan sig" þar sem hann hafði við engan æðri að sverja og sagði: ,Sannlega mun ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt." Og Abraham öðlaðist það sem Guð hafði heitið honum er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi. Menn sverja eið við þann sem æðri er, eiðurinn er þeim staðfesting og bindur enda á öll andmæli. Með því nú að Guð vildi sýna þeim sem fyrirheitið var ætlað enn skýrar hve ráð sitt væri óraskanlegt, þá ábyrgðist hann heit sitt með eiði. Það er óhugsandi að Guð fari með lygi og því er þetta tvennt sem er óraskanlegt mikil uppörvun fyrir okkur sem höfum leitað athvarfs í þeirri sælu von sem við eigum. Þessi von er eins og akkeri fyrir sálina, traust og öruggt, og nær alla leið inn fyrir fortjaldið þangað sem Jesús gekk inn og opnaði okkur leið þegar hann varð æðsti prestur að eilífu að hætti Melkísedeks. Bréf/Hebrea 6:13-20.


Bæn dagsins.

Ég og ættmenn mínir munum þjóna Drottni. Jós.24:15.


Næsta síða »

Höfundur

Gunnlaugur Halldór Halldórsson
Gunnlaugur Halldór Halldórsson

Ég elska Jesús. gunnlaugurh62@gmail.com

224 dagar til jóla

Apríl 2022
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 90
  • Frá upphafi: 216268

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir