Færsluflokkur: Trúmál

Bæn dagsins...Ljóðaljóð Salómons.

(Hún)

Kysstu mig kossi vara þinna, atlot þín eru ljúfari en vín. Yndislegur ilmur er af smyrslum þínum og nafn þitt sem dýrasta olía. Þess vegna elska stúlkurnar þig. Dragðu mig með þér, hlaupum. Konungurinn leiði mig í herbergi sín. Gleðjumst og fögnum þér, lofum ást þína meira en vín; já,eins og nýtt vín elska þær þig.

Ég er dökk og yndisleg, Jerúsalemdætur, eins og tjöldin hjá Kedar, eins og tjalddúkarnir hjá Salma. Takið ekki til þess að ég er dökkleit, að sólin hefur brennt mig. Synir móður minnar reiddust mér og settu mig til að gæta vínekranna en vínekra minnar gætti ég ekki. Segðu mér, þú sem sál mín elskar, hvar heldurðu fé þínu til beitar, hvar hvílist þú um hádegið? Hví skyldi ég reika um hjá hjörðum félaga þinna?

(Hann)

Vitir þú það ekki, þú fegurst meðal kvenna, rektu þá slóð hjarðarinnar og haltu kiðlingum þínum til beitar hjá tjöldum hirðanna. Við hryssu fyrir vagni faraós líki ég þér,ástinj mín. Yndislegir ert vangar þínir undir skrautfléttunum og háls þinn prýddur gimsteinum. Gullfléttur gerum við þér greyptar á silfurspangir.

(Hún)

Konungurinn hvílir á hægindi sínu og ilminn leggur af nardussmyrslum mínum, elskhugi minn er myrruknippi milli brjósta mér, hennablóm er elskhugi minn mér, af vínekrunum í Engedí.

(Hann)

Hve fögur ertu, ástin mín, hve fögur, og augu þín dúfur.

(Hún)

Hve yndislegur ertu, elskhugi minn, hve fagur, og hvíla okkar iðjagræn, sedrustrén máttarviðir hús okkar og kýprustrén þilviðirnir. Amen.

Ljóðaljóðin:1:2-17

 


Bæn dagsins...Niðurlag..

En prédikarinn var spekingur og miðlaði mönnum einnig þekkingu og rannsakaði og kynnti sér og samdi mörg spakmæli. Prédikarinn leitaðist við að finna fögur orð og það sem hann hefur skrifað í einlægni eru sannleiksorð. Orð spekinganna eru hvöss sem broddar og kjarnyrðin eins og fastreknir naglar; þau eru gefin af einum hirði. 

Sonur minn, þýðstu viðvaranir. Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir og mikill lestur þreytir líkamann. 

Við skulum hlýða á niðurstöðu þessa alls: Óttastu Guð og haltu boðorð hans því að það á hver maður að gera. Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt. Amen.

Préd:12:9-14


Bæn dagsins...

Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast er þú segir um: ,,Mér líka þau ekki ," áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar, áður en skýin koma aftur eftir regnið, þá er þeir skjálfa sem hússins gæta og sterku mennirnir verða bognir og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að því að þær eru orðnar fáar og dimmt er orðið hjá þeim sem líta út um gluggana og dyrunum út að götunni er lokað og hávaðinn í kvörninni minnkar og menn vakna við fuglskvak en allir söngvarnir verða lágværir, þegar menn eru hræddir við hæðir og sjá skelfingar á veginum, þegar möndlutréð stendur í blóma og engispretturnar dragast áfram og kapersber hrífa ekki lengur en maðurinn fer burt til síns eilífðarhúss og grátendarnir ganga um strætið, áður en silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar og skjólan mölvast við lindina og hjólið brotnar við brunninn og moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var og andinn til Guðs sem gaf hann. Aumasti hégómi, segir predikarinn, allt er hégómi. Amen.

Préd:12:1-8


Bæn dagsins...Æska og elli..

Lifi maðurinn mörg ár, þá á hann að vera glaður öll þau ár og minnast þess að dagar myrkursins verða margir. Allt sem á eftir kemur er hégómi. Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni og láttu leggja vel á þér unglingsár þín og breyttu eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast en vita skaltu að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm. Vísaðu gremju burt frá hjarta þínu og láttu ekki böl koma nærri líkama þínum því að æska og morgunroði lífsins eru hverful. Amen.

Préd:11:8-10


Bæn dagsins...Starfa meðan dagur er..

Varpaðu brauði þínu út á vatnið. þegar margir dagar eru liðnir muntu finna það aftur. Skiptu hlutanum sundur meðal sjö eða jafnvel átta því að þú veist ekki hvaða ógæfa bíður landsins. Þegar skýin eru orðin full af vatni hvolfa þau regni yfir jörðina. Þegar tré fellur til suðurs eða norðurs, þá leggur það kyrrt á þeim stað. Sá sem sífellt gáir að vindinum sáir ekki og sá sem sífellt horfir á skýin uppsker ekki. Þú veist ekki hvaða veg vindurinn fer og hvernig beinin myndast í móðurlífi þungaðrar konu,eins þekkir þú ekki heldur verk Guðs sem allt gerir. Sáðu sæði þínu að morgni og láttu hendur þínar ekki hvílast að kvöldi því að þú veist ekki hvort muni heppnast þetta eða hitt eða hvort tveggja verði jafngott. Indælt er ljósið og ljúft er augunum að horfa á sólina. Amen.

Peéd:11:1-7


Bæn dagsins...Orðtök um hyggindi..

Til er böl sem ég hef séð undir sólinni, yfirsjón af hálfu valdhafans: Heimskan er sett í háu stöðurnar en göfugmennin sitja í niðurlægingu. 

Ég sá þræla sitja hesta og höfðingja fótgangandi eins og þræla. Sá sem grefur gröf fellur í hana og þann sem rífur niður vegg getur höggormur bitið. Sá sem sprengir steina getur meitt sig á þeim, sá sem klýfur við getur stofnað sér í hættu. Sé öxin orðin sljó og eggin ekki brýnd, þá verður maðurinn að neyta því meiri orku. Það er ávinningur að undirbúa allt með hagsýni. Ef höggormurinn bítur af því að særingar hafa verið vanræktar, þá kemur særingamaðurinn að engu liði. Orð af munni viturs manns eru yndisleg en varir heimskingjans vinna honum tjón. Fyrstu orðin út úr honum eru heimska og endir ræðu hans er ill flónska. Heimskinginn mælir mörg orð, þó veit maðurinn ekki hvað verða muni. Hvað verða muni eftir hans dag, hver segir honum það? Amstur heimskingjans þreytir hann, hann ratar ekki veginn inn í borgina. Vei þér, land, sem hefur dreng að konungi og höfðingjar þínir setjast að veislu að morgni dags! Sælt ert þú, land, sem hefur eðalborinn mann að konungi og höfðingjar þínir matast á réttum tíma sér til styrkingar en ekki til þess að verða drukknir. Vegna leti síga bjálkarnir niður og vegna iðjulausra handa lekur húsið. Til gleðskapar búa menn máltíðir, vín gerir lífið skemmtilegt og peningarnir veita allt. Formæltu ekki konunginum, jafnvel ekki í huga þínum, og formæltu ekki ríkum manni í svefnherbergjum þínum því að fuglar loftsins kynnu að bera burt hljóminn og hinir vængjuðu að hafa orðin eftir. Amen.

Préd:10:5-20


Bæn dagsins...Orðtök um hyggindi..

Dauðar flugur valda ódaun með því að hleypa gerjun í olíu smyrslarans. Ofurlítill aulaskapur er þyngri á metunum en viska eða sómi. 

Hjarta viturs manns stefnir á heillabraut en hjarta heimskingjans leiðir hann í ógæfu. Aulinn gengur veg sinn og brestur vitið og segir við hvern mann að hann sé auli. Ef reiði drottnarans kviknar gegn þér, vertu þá staðfastur því að stilling afstýrir miklum glappaskotum.Amen.

Préd:10:1-4


Bængagsins...Viska fátæks manns..

Þetta virtist mér einnig speki undir sólinni og fannst mér mikið um: Einu sinni var lítil borg og fáir menn í henni. voldugur konungur fór gegn henni, settist um hana og 

reisti mikil hervirki við hana. En í borginni var fátækur maður en vitur og hann bjargaði borginni með visku sinni. En enginn minntist þessa fátæka manns. Þá hugsaði ég: 

Viska er betri en afl en viska fátæks manns er fyrirlitin og orðum hans er enginn gaumur gefinn. Orð viturra manna, sem hlustað er á í næði, eru betri en óp valdhafans meðal heimskingjanna. Viska er betri en hervopn en einn syndari spillir mörgu góðu. Amen.

Préd:9:13-18


Bæn dagsins...Maðurinn háður tíma og tilviljun..

Enn sá ég undir sólinni að hinir fótfráu ráða ekki hlaupinn, né hetjurnar stríðinu, né eiga spekingarnir brauðið víst, né hinir hyggnu auðinn, né hinir vitru vinsældir því að tími og tilviljun hittir þá alla fyrir. Maðurinn þykkir ekki einu sinni sinn tíma. Eins og fiskarnir festast í hinu háskalega neti og eins og fuglarnir festast í snörunni, á líkan hátt verða mennirnir fangnir á óheillatíð þegar hún kemur skyndilega yfir þá. Amen.

Préd:9:11-12


Bæn dagsins...Sömu örlög henda alla menn..

Öllu þessu veitti ég athygli og allt þetta reyndi ég að rannsaka: Hinir réttlátu og vitru og verk þeirra eru í hendi Guðs. Hvorki ást né hatur veit maðurinn fyrir allt bíður síns tíma, hið sama hendir alla, sömu örlög mæta réttlátum og óguðlegum, góðum og illum, hreinum og óhreinum, þeim sem fórnfærir og þeim sem ekki fórnfærir. Hinum góða farnast eins og syndaranum, og þeim er sver eins og þeim er óttast svardaga. Það er ókostur við allt sem við ber undir sólinni að sömu örlög mæta öllum og því fyllist hjarta mannanna illsku og heimska ríkir í hjörtum þeirra alla ævi þeirra og síðan leggur leiðin til hinna dauðu. Meðan maður er sameinaður þeim  sem lifa, svo lengi er von, því að lifandi hundur er betri en dautt ljón. Þeir sem lifa vita að þeir eiga að deyja en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar og minning þeirra gleymist. Bæði ást þeirra, hatur og öfund, það er fyrir löngu farið og þeir eiga ekki framar hlutdeild í neinu sem við ber undir sólinni. Farðu því og et brauð þitt með ánægju og drekktu vín þitt með glöðu hjarta því að Guð hefur lengi haft  velþóknun á verkum þínum. Klæði þín séu ætíð hvít og höfuð þitt skorti aldrei  ilmsmyrslin. Njóttu lífsins með konunni,sem þú elska, alla daga þíns fánýta lífs, sem hann hefur gefið þér undir sólinni, alla þína fánýtu daga því að það er hlutdeild þín í lífinu og það sem þú færð fyrir strit þitt sem þú streitist við undir sólinni. Allt sem hönd þín megnar að gera með kröftum þínum, gerðu það, því að í dánarheimum, þangað sem þú ferð, er hvorki starfsemi né þekking né viska. Amen. 

Préd:9:1-10


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnlaugur Halldór Halldórsson
Gunnlaugur Halldór Halldórsson

Ég elska Jesús. gunnlaugurh62@gmail.com

124 dagar til jóla

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.8.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 97
  • Frá upphafi: 217744

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 71
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu færslur

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband